Húðmein fjarlægt
Nú er búið að fjarlægja meinið. Vonandi er með því meðferðinni við þessu lokið. Hér koma nokkur ráð hvernig best er að haga lífinu á næstunni
Leiðbeiningar eftir aðgerð - húðmein
-
Skurðir þínir hafa umbúðir í tveimur lögum. Innst eru þunnir plástrar og utaná eru umbúðapúðar sem taka við þeim fáu blóðdropum sem sjást á fyrsta sólarhring eftir aðgerð.
-
Eftir 2-3 daga má taka burt ytri umbúðirnar, en þær innri (teipið) á að sitja á sínum stað fram að endurkomutímanum sem bókaður hefur verið.
-
Teipið þolir vatn, svo á þriðja degi skaltu fara í sturtu eftir að hafa fjarlægt umbúðapúðana (ytri umbúðirnar). Góð sturta fækkar bakteríum á húðinni, og minnkar því líkur á sýkingu. Eftir sturtuna geturðu þurrkað teipið með hárþurrku. Það er misskilningur að ekki megi koma vatn á nýja skurði. Íslenskt vatn og fljótandi sápa gera ekkert nema gagn í að hindra sýkingu.
-
Farðu vel með þig vikurnar eftir aðgerð. Ráðlegt er að sleppa vinnu í 2-3 daga eftir aðgerðina.
-
Þú skalt forðast alla líkamlega áreynslu fyrr en allt er gróið og bólgan hefur að mestu horfið.
-
Endurkomutíminn er yfirleitt bókaður eftir ca. viku. Í honum athugum við hvort gróandinn í skurðunum sé eðlilegur og gætum að sýkingareinkennum. Ekki er ráðlegt að sleppa þessum tíma, sama þó allir saumar séu undir húðinni og þér líði vel.
-
Ef skyndilega tekur að vessa úr einhverjum skurði, það myndast roði og verkur, eða þú færð hita skaltu hafa samband við Andra. Fremur auðvelt er að greina mögulega sýkingu gegnum síma (ljósmyndir / video). Ef þörf krefur kallar Andri þig til skoðunar á stofu og ávísar sýklalyfjum. Þér verður svo fylgt eftir þar til sýkingin er horfin. Vinsamlegast athugið að sýklalyf eru aldrei gefin fyrirbyggjandi, það eykur bara líkurnar á að rækta fram ónæmar bakteríur.
-
Eftir að allt er gróið mælum við með að haft sé skurðlæknateip (Mepore) á örinu í hið minnsta 6 mánuði. Ef um andlit er að ræða er hægt að fá sérstakt sílikonkrem, sem má svo sminka yfir þegar það er þornað.
-
Ef í nauðirnar rekur má senda SMS eða hringja beint í Andra: 853 5403
-
Þegar niðurstaða berst úr smásjárskoðuninni sem verður framkvæmd færðu annað hvort símtal eða bréf.
-
Mundu að endanlegur árangur aðgerðarinnar kemur ekki í ljós fyrr en að minnsta kosti 6 mánuðir hafa liðið frá aðgerðardegi.