top of page

Aðgerð á efri augnlokum

Með aldrinum er það algengara en ekki að húðin fer að safnast fyrir og hanga. Þetta er algerlega bundið við gen viðkomandi og er ekkert við að gera. Hins vegar er fremur auðvelt að losna við þessa auka húð og fá augnsvæðið er líta betur út og vera til friðs sem og gera augnumgjörðina yngri og ásjálegri en áður. Þetta köllum við aðgerð á efri augnlokum, blepharoplasty

Efri augnlok

Vandamálið

Það er algengt að vandamálið sé ekki einungis bundið við húðina á augnlokunum. Yfirleitt er um fleiri vandamál að stríða tengd þessu, en það þýðir ekki að það sé nauðsyn að tæka þau ef gera á augnlokaaðgerð. Það er hins vegar mikilvægt að hafa þetta ástand í huga, sem getur haft áhrif á aðrar aðgerðir eða sprautumeðferð á svæðinu.

Það sem hægt er að gera...

Yfirleitt er ekki nóg að hugsa eingöngu um magn umframhúðar á efri augnlokunum. Það er ýmislegt fleira sem þarf að spá í.

Hið fyrsta er staðan á enninu. Það gæti verið að ennið, eins og það leggur sig sé það sigið, að útkoman af því líti út eins að augnlokin séu sigin og að það sé of mikið af húð. Þá er samt ekki orsökin of mikil húð á sjálfum augnlokunum heldur er öll húðin, allur vefurinn á svæðinu fyrir ofan augnlokin siginn, og það er alls ekki víst að augnlokin hafi nokkuð með útlitið að gera. Verið getur að með því að lyfta enninu með aðgerð, eða jafnvel með sprautumeðferð, þá þurfi ekki að gera augnlokaaðgerð.

En ef svo er að vandamálið er eingöngu bundið við augnsvæðið, þá þarf að velta fyrir sér hvort eingöngu sé um að ræða of mikla húð, eða hvort sé um að ræða útbungun á skilveggnum (septum) með fitunni innan í (sjá mynd).

Augnkúlan sjálf situr innan í augntóftinni (orbita) í lausri fitu svo að augnknötturinn geti snúist eins og hann hann vill án þess að sé nokkur fyrirstaða.

Þessari fitu er haldið i skefjum með bandvefshimnu sem skilur þennan fituvef frá framhliðinni á auganu, þeirri hlið sem við sjáum.

Með aldrinum er hins vegar ekki svo óalgengt að þetta skilrúm slappist, sem þýðir að fitan innan í augntóftinni bungar út og þrýstir efra augnlokinu enn meira út á við og niður.

Þannig er allt svæðið ofan augans stórt og þykkt og erfitt getur verið að halda öllum þessum vef uppi með þeim litlu vöðvum sem annast þetta starf.

Afleiðingin getur verið langvinnir höfuðverkir og þreyta í enni og augum.

Augnlokaaðgerð

Þegar ástandið er svona þá er ekki nóg að taka eingöngu burt húð. Eitthvað þarf að gera til að létta á augnlokunum, þ.e. að leiðrétta fyrir því að bandvefshimnan er farin að bunga út. Ef hins vegar á að gera góða aðgerð á þessu ástandi þarf að gera tvennt.

Eftir að búið er að teikna á augnlokin eins mikið af húð og hægt er að taka burt er húðin fjarlægð, ásamt stimli af hringvöðva augans. Þá er komið niður á þessa bandvefshimnu. Farið er svo mjög varlega í gegnum hana á 2-3 stöðum og svolítið af þessari auka fitu í augntóftinni fiskuð út. Eftir það er saumað yfir og húðinni lokað. Í annan stað er hægt að brenna á himnuna með tvískauta rafhníf svo svo að hún dragist saman og haldi við þrýstinginn frá fitunni fyrir innan sem vill bunga út.

Muna þarf að augnlokin hanga neðan í augabrúnunum og augabrúnirnar hanga neðan í enninu. Og í enninu er hundurinn oft grafinn. Vandamálið liggur stundum efst á enninu. Ennig sígur með árunum, alveg eins og allt annað á líkamanum. Þegar ennið er sigið hanga augabrúnirnar yfirleitt lágt (neðan við beinkantinn sem hægt er að þreifa fyrir ofan augað). Þegar augabrúnirnar hanga niður í augntóftirnar veldur það því að húðin á sjálfum augnlokunum krumpast og verður óþarflega mikið.

Stundum þarf því að byrja á að gera ennislyftingu til að hífa upp augabrúnirnar og þar með augnlokin. Þá má sjá að húðin á sjálfum augnlokunum hefur orðið miklu minni en áður. Það er jafnvel ekki óþekkt að ekki þurfi að gera neina augnlokaaðgerð eftir vel heppnaða ennislyftingu. Samt er það þannig að ef ennið er slappt, þá má gera ráð fyrir að húðin neðan við sé líka slöpp, sem og septum sem þá bungar eflaust talsvert út.

Hins vegar þarf að passa sig í þessum tilfellum. Ef ennið er sigið, en húðin á augnlokunum er minnkuð eins og hægt er, þá getur orðið ómögulegt að gera ennislyftingu síðar. Húðin á augnlokunum dugir þá ekki til, ef enninu er lyft getur viðkomandi þá kannski ekki lokað augunum.

bottom of page