Algengasti fylgikvillinn eftir þessa aðgerð er blæðing. Af einhverjum orsökum, enginn veit af hverju, þá hefur brjóstakirtilvefur karlmanna tilhneigingu til að blæða eftir aðgerð. Þó svo skurðlæknirinn skilji við sárið algerlega þurrt, þá er ekki svo óalgengt að eftir fáeina tíma að annað brjóstið fyllist af blóði. Þá er sjaldan um annað að ræða en að fara með sjúklinginn aftur inn á skurðstofu, svæfa opna, hreinsa burtu blóðið og finna æðina sem hefur byrjað að blæða aftur. Stundum er reynt að koma í veg fyrir þetta með að leggja granna drenslöngu frá sárasvæðinu út gegnum eitt af götunum sem var gert fyrir fitusogið. Það hjálpar sjaldnast, því að ef blæðing á svæðinu fer af stað, þá er hún venjulega svo stor að drenið stíflast um leið.
Eins getur komið upp sýking. Þá er yfirleitt um að ræða einhvern kant kringum vörtubauginn. Mun sjaldnar er að það komi sýking í litlu götin eftir fitusogið, þó það sé ekki alveg óþekkt. Þessar sýkingar eru nær alltaf litlar og gefa vel eftir þegar sýklalyf eru gefin.
Mjög óalgengt er að upp komi drep í húð einhvers staðar. Þetta gerist helst ef vörtubaugurinn hefur verið minnkaður allan hringinn. Ef þetta gerist sést það yfirleitt á degi 2 eftir aðgerð. Brúna húðin er þá föl og slöpp og blæðir ekki þegar stungið er í hana með nál. Smám saman verður hún svört og þurr, eins og lok ofan á sárasvæðið fyrir innan. Ef hægt er, er best að láta lokið vera á sínum stað og bíða þar til það dettur af, en þá er gróið undir. Stundum verður samt að fjarlægja allan dauða vefinn og sauma, svo allt geti gróið. Síðan þarf að endurgera geirvörtuna og húðflúra vörtubauginn. Útlitslega séð getur þetta orðið skaplegt, en samt aldrei eins og áður.
Hins vegar má gera ráð fyrir næstum algeru tilfinningaleysi í geirvörtunum eftir svona aðgerð. Flestum karlmönnum stendur rennislétt á sama, enda eru þeir ekki jafn háðir geirvörtunum og konur sem hafa yfirleitt meiri tilfinningu í þeim frá byrjun, og sumar nota þær til að gefa brjóst.
Þegar vörtubaugurinn er minnkaður (skorinn eins og kleinuhringur af brúnni húð úr brúninni á honum) þarf að sauma saman nýja (og minni) kantinn á vörtubaugnum og hvítu húðina utan við. Stundum eru þessir kantar nokkuð strekktir þegar þeir eru saumaðir. Þau ör sem myndast hafa alltaf tilhneigingu til að gliðna, mögulega vegna þess að húðin á brjóstunum er fremur þunn, bæði hjá körlum og konum. Það eru líka stórir kraftar að verki, því að brjóstvöðinn er stór og sterkur vöðvi. Til að hindra þetta má reyna að hafa skurðlæknateip á örunum í hið minnsta 9 mánuði. Ef þetta hefur hins vegar gerst má reyna að skera burt örin og sauma upp á nýtt. Mikilvægt er þá að það hafi liðið minnsta kosti heilt ár, helst 18 mánuðir. Og teipa svo aftur í ár. Þetta hjálpar oft en ekki alltaf. Breið ör í kringum vörtubauginn eru stundum fórnarkostnaður sem fylgir aðgerðinni.
Í aðgerð vegna gynecomastíu er alltaf byrjað á því að fitusjúga. Og yfirleitt er best að fitusjúga hart og aggressíft, því sjúklingurinn vill vera alveg viss um að losna við eins mikið af vefnum á svæðinu og hægt er. Ef skurðlæknirinn gerir þetta, þá verður óhjákvæmilega örmyndun milli húðarinnar og stóra brjóstvöðvans undir. Þessi örmyndun gerir að húðin verður sjaldnast algerlega slétt, heldur eru á sumum stöðum vissir inndrættir, holur. Bæði eru þó holurnar grunnar og litlar, en geta sést þegar kíkt er eftir þeim. Þær eru hins vegar ekki svo áberandi að aðrir sjái þær nema þeim sé bent á. Og ekkert sést af þeim þegar sjúklingurinn er í bol, þó svo hann sé aðskorinn.
En þrátt fyrir þessa upptalningu á mögulegum fylgikvillum eftir slíka aðgerð, þá er það yfirleitt svo að þessar aðgerðir ganga ljómandi vel, og gróa án nokkurra vandræða. Passa þarf bara að vera í þrýstingsvestinu jafn lengi og skurðlæknirinn mælir með, og þá verða flestir sjúklingarnir mjög ánægðir.